22.5.2009 | 23:13
Fangi númer 43760
María Kaminska gekk 18 ára í pólsku andspyrnuhreyfinga, var handtekin og send í Auschwich.
Radymno er ekki ýkja merkilegur bær en kannski þekktastur hér í Póllandi fyrir það að gyðingar sem bjuggu hérna í upphafi seinnastríðsins voru þeir fyrstu sem sendir voru í hinar hræðilegu útrýmingarbúðir í Auschwitz. Þegar Barbara kona mín hafði sagt mér, Páli Höskuldssyni, frá gamalli konu sem hafði verið í hinum alræmdu fangabúðum nasista í Auschwitz og að hún byggi í næsta húsi við okkur hérna í Radymno varð ég að ná tali af konunni og fá að heyra sögu hennar. Það gekk ekki þrautalaust því hún var ekki vel frísk þegar ég kom hérna í fyrstu tvö skiptin en núna um daginn í sumarhitanum og veður blíðunni gafst mér tækifæri til að ræða við Maríu og fá að heyra sögu hennar með aðstoð Barböru.
Við tylltum okkur niður í fallegum garði í miðri Radymno. Þegar við erum sest tek ég eftir því að haustið er ekki langt undan,fölnuð laufblöð bera þess vitni. Það er líka farið að hausta í lífi Maríu Kaminsku sem svo sannarlega hefur lifað tímana tvenna. Eftir að hafa komið til Auschwitz og séð með eigin augum við hvernig kjörfólk mátti lifa í þessum alræmdu fangabúðum þá er ég enn meira undrandi að sitja við hliðina á konu sem lenti í þessum óhugnanlegu fangabúðum og lifði það af. Maria Kaminska er fædd árið 1921 og því í dag 87 ára gömul.María er fædd í borg sem áður var pólsk, en eftir stríð var hún innlimuð í Úkraínu. Borgin heitir Jawonowa og er ekki svo ýkja stór, ekki langt hér frá, en landamæri Úkraínu liggja hérna við Radymn og Lviv. Eins og fyrr segir býr María við sömu götu og Barbara; Misckiewicza. Þrátt fyrir háan aldurer hún hin hressasta en er farin að tapa heyrn. Ég finn samt að þegar við byrjum að ræða um helförina man hún allt eins og það hefði gerst í gær.
Var í andspyrnuhreyfingu
María var gift til margra ára og varð ekkja fyrir sjö árum, hún og maður hennar eignuðust sex börn sem öll eru á lífi. Hún býr nú ásamt syni sínum og tengdadóttur hérna við Mickiewicza. Hún gætti bús og barna og var það sem við köllum húsmóðir. En gefum Maríu orðið. Ég heiti Maria Kaminska og er fædd árið 1921 í bænum Jawonowa sem nú er bær í Úkraínu en var áður í Póllandi. Ég var aðeins 18 áragömul (1939) þegar ég ákvað að ganga til liðs við andspyrnuhreyfinguna í Póllandi og til þess að þjóna mínu föðurlandi. Við vildum gera allt til þess að frelsa þjóð okkar frá nasismanum. Það þótti bara sjálfsagt að ganga til liðs við andspyrnuhreyfinguna á þessumtíma. Ég tók þá ákvörðun að fara til Varsjár og gekk því til liðs við andspyrnuhreyfinguna (pólska herinn) ásamt mörgum öðrum ungum Pólverjum í upphafi stríðsins. Mér var falið það hlutverk í andspyrnuhreyfingunni að vera einskonar tengiliður við hermenn okkar og vann við það að útvega nauðsynjar sem mögulegt var að verða sér úti um á þeim tíma. Mest var þetta fatnaður og matur og vopn.
Var hvergi óhult
Varsjá var að sjálfsögðu hernumin þarna í upphafi stríðs. Hætturnar leyndust víða og margir félagar okkar féllu í valinn og margir voru handteknir og færðir í fangabúðir nasista. Nasistar og Gestapo voru alls staðar í borginni,enginn var óhultur hvert sem var farið. Gyðingum var smalað saman í sérstök gyðingahverfi, gettó, í Varsjá, slík var harka nasistanna.Ég vissi allan tímann að ég gæti misst lífið eða verið handtekin hvenær sem var. Það var sú fórn sem ég og aðrir andspyrnumenn urðum að leggja á okkur og að lifa fyrir föðurland okkar.
Handtekin af Gestapo Það kom svo að því að ég var handtekin er ég var að reyna að koma vistum til andspyrnumanna. Gestapo handtók mig og ég vissi ekkert hvað myndi verða um mig. Ég vissi að margir höfðu verið sendir til Birkenau (Auschwitz II). Það kom líka á daginn að ég var send þangað. Ég vissi að þetta voru alræmdustu fangabúðirnar. Þar var ég sett í búðir með Pólverjum(andspyrnumönnum) og vorum við höfð sér ásamt pólskum sakamönnum.Aðbúnaðurinn í Auschwitz var hörmulegur eins og sagt hefur verið frá og myndir hafa sýnt.
Fékk númerið 43760
Ég var brennimerkt og fékk númer á hönd mína 43760 sem hefur fylgt mér alla tíð. Allur matur var af skornum skammti og var í raun um sult að ræða hjá okkur. Sjúkdómar komu upp og margir létu lífið af næringarskorti og illri meðferð. Ég fékk litlar fréttir af fjölskyldu minni allan tímann og vissi ekkert um afdrif hennar fyrr en eftir stríð. Starf mitt í Auschwitz var fólgið í því að safna saman verðmætum sem fólk lét eftir sig þegar það hafði verið sett í gasklefana. Þá var ég látin safna öllum verðmætum sem hinir látnu létu eftir sig. Ástæða þess var sú að við sem vorum ípólska hlutanum vorum valin til þessa starfa. Við vorum látin vera með svartan borða a handleggnum eins og gyðingar voru með gulu gyðingastjörnuna.
Var skinn og bein í Auschwitz
Vistin í Auschwitz var hreint helvíti, margir misstu lífið þarna inni. Margir dóu úr sjúkdómum sem oftar en ekki geisuðu Þarna,sjúkdómar eins og kólera, taugaveiki og berklar, og margir enduðu lífdagana í gasklefunum. Það var um skipulagðar þjóðernishreinsanir að ræða. Ég missti marga vini mína þarna inni. Vini sem ég hugsa oft um enn í dag. Við sem lifðum þessar hörmungar af vorum frelsuð árið 1945 í stríðslok þegar bandamenn komu og frelsuðu okkur. Ástand mitt varekki gott og ég var nánast bara skinn og bein og vannærð eftir þessar hörmungar og þetta helvíti.
Var boðið að búa í Ameríku
Strax eftir stríðið buðu bandamenn mér að flytja til Ameríku en ég vildi ekki flytja þangað. Ég var ákveðin í því að búa áfram í Póllandi og finna framtíð mína hér. Stríðið hefur sett mark á mig sem og svo margan annan sem lifði þessa helför af. Ég hef samt getað horft fram á veginn og lifað hamingjusömu lífi og hef eignast góða fjölskyldu sem hefur verið mér dýrmæt og kær.
Sex barna móðir
Hérna í Radymon hef ég búiðfrá því að stríðinu lauk og hérna hef ég alið upp börn mín sex og ég var gift en maður minn dó fyrir sjöárum. Ég segi þér sögu mína til þess að þú getir sagt öðrum frá því hve miklar hörmungar nasisminn leiddi yfir þjóð mína og heimsbyggðina. Ég þakka Maríu fyrir spjallið og tek myndir af henni og Barböru fyrir utan húsið heima hjá henni.Hún styður sig við staf sinn og horfir á þennan forvitna Íslending frá framandi slóðum. Það er einhver friður og fegurð yfir þessari gömlu konu sem fær mig til að staldra við og hún brosir til mín og kveður á sinni fallegu pólsku: dowidzenia.
Obama gegn kortafyrirtækjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Bílar og akstur | Breytt s.d. kl. 23:27 | Facebook
Um bloggið
Páll Höskuldsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.